Hvers vegna að kenna kristnifræði og trúarbragðafræði í grunnskólum?

 

Gunnar J. Gunnarsson lektor
Erindi flutt á málþingi Kjalarnessprófastsdæmis um kennslu í kristnum fræðum
17. febrúar 2005

Inngangur

Það verður að teljast fullgild og mikilvæg spurning hvort ástæða sé til að kenna kristin fræði og trúarbragðafræði í opinberum skólum, ekki síst á tímum vaxandi fjölhyggju og fjölmenningar. Er slík fræðsla verkefni opinbera skólakerfisins, og þá með hvaða hætti, eða á hún betur heima á vettvangi fjölskyldu og heimila, krikju og trúfélaga?

Þótt vissulega sé víða vel að verki staðið bendir ýmislegt til þess að námsgreinin kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði sé í vissri kreppu eða hornreka í mörgum grunnskólum. Samtöl við kennara og kennaranema staðfesta það og auk þess hafa verið gerðar rannsóknir eða kannanir á síðustu 10-15 árum sem benda til hins sama. Árið 1993 var gerð könnun í tengslum við lokaverkefni frá Kennaraháskóla Íslands sem sýndi að þegar rýma þurfti fyrir tilfallandi viðfangsefnum á stundaskrá í þeim grunnskólum sem voru í úrtaki voru það oft kristinfræðitímarnir sem voru látnir víkja (Auður Pálsdóttir og Ragnheiður Matthísadóttir 1993, s. 11-13). Í rannsókn sem ég gerði árið 1997 kom í ljós að 20% nemenda í 7. bekk höfðu enga tíma í kristnum færðum þegar þeir voru spurðir og í 9. bekk voru 81% í engum tímum í greininni (sem að vísu skýrist af því að lítil hefð er fyrir því að kenna kristinfræði eða trúarbragðafræði í 9. bekk). Á hinn bógin hefur jafnframt komið í ljós í rannsóknum frá árabilinu 1990-2000 að mikill meiri hluti þeirra sem hafa verið spurðir eru þeirrar skoðunar að kenna eigi kristin fræði og trúarbragðafræði í grunnskólum og afstaða fólks, bæði foreldra, kennara og nemenda er fremur jákvæð til greinarinnar (sjá t.d. Björn Björnsson og Pétur Pétursson 1990, s. 83-88, Anna M. Sigurðardóttir og María Jónsdóttir 1993, s. 74-84, og Gunnar Sturla Hervarsson 1998, s.76-89).

Þrátt fyrir þetta eru ýmsir þeirrar skoðunar að ekki eigi að kenna um trúarbrögð í opinberum skólum eða þeir gera athugasemdir við núverandi skipan þeirra mála hér á landi, þar sem hefð er fyrir því að mest áhersla sé lögð á kristin fræði en fræðsla um önnur trúarbrögð fá minna rými (sjá t.d. vef Siðmenntar, www.sidmennt.is).

Í nágrannalöndunum, t.d. á Norðurlöndunum og á Bretlandi, hefur átt sér stað mikil umræða um kristinfræði- og trúarbragðakennslu í opinberum skólum og fyrirkomulag hennar. Í þessum löndum er gert ráð fyrir slíkri fræðslu í grunn- og framhaldsskólum, en sjónarmið eru hins vegar mismunandi varðandi útfærsluna. Þótt skoðanir séu skiptar má draga lærdóm af umræðunum og þeim sjónarmiðum sem þar birtast. Hér er hins vegar ekki rúm til að gera grein fyrir þeim umræðum öllum en þó skulu dregin fram nokkur meginsjónarmið um mismunandi fyrirkomulag fræðslu um trúarbrögð.

Mismunandi fyrirkomulag

Trúarbragðafræðslu í opinberum skólum má í fyrsta lagi hugsa sér með svipuðu sniði og tíðkast hér á landi, þar sem kristin fræði skipa á vissan hátt öndvegi en jafnframt er fræðsla um önnur helstu trúarbrögð heims. Þetta sjónarmið tekur tillit til þess hvaða trúarbrögð hafa verið ráðandi í mótun þeirrar menningar og samfélags sem um ræðir og þannig eru færð menningarleg og samfélagsleg rök fyrir slíkri skipan mála. Það er með öðrum orðum talið eðlilegt að verja mestum tíma í þau trúarbrögð sem eru ríkjandi í samfélaginu. Hér á landi er það kristnin sem er í þeirri stöðu. Þá er á það bent að þekking á Biblíunni og kristni sé nauðsynleg forsenda til skilnings á vestrænni menningu, samfélagi og gildismati. Þá er einnig lögð á það áhersla að þekking á eigin trúarbrögðum eða þeim sem ríkjandi eru í samfélaginu sé mikilvæg forsenda til skilnings á trú og lífsviðhorfi annarra og þar af leiðandi umburðarlyndis (sjá Aðalnámskrá grunnskóla 1999, kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði). Til viðbótar er jafnvel bent á hvernig íbúar landsins greinast í trúfélög en hér á landi tilheyra um 94% kristnum trúfélögum, þar af um 85% þjóðkirkjunni. Þetta eru allt gild rök í málinu en á móti má þó benda á að með þessu fyrirkomulagi er trúarbrögðum gert mishátt undir höfði í fræðslu skólanna. Í öðru lagi má hugsa sér almenna trúarbragðafræðslu í opinberum skólum með því sniði að álíka mikil áhersla sé lögð á helstu trúarbrögð heims. Þannig er talið nauðsynlegt að leitast við gera ólíkum trúarbrögðum og lífsviðhorfum álíka hátt undir höfði og tekið mið af vaxandi margbreytileika samfélagsins í trúarlegum efnum. Rökin sem beitt er eru réttlætis rök og félagsleg rök. Talið er mikilvægt að skólinn annist menntun á þessu sviði. Skólinn geti ekki látið eins og trúarbrögð séu ekki til og þekking á trúarbrögðum er talin mikilvægur þáttur í almennri menntun. Þá er hún einnig álitin mikilvæg forsenda umburðarlyndis og víðsýni. Það sé hins vegar ranglátt að mismuna trúarbrögðunum með því að verja mismiklum tíma til þeirra í fræðslunni. Hér eru vissulega á ferð gild rök en á móti má benda á að þessi skipan mála tekur ekkert tillit til alda langra áhrifa ráðandi trúarbragða á menningu og samfélag, né heldur úrbreiðslu trúarbragðanna eða hvernig íbúar skiptast eftir trúfélögum.

Í þriðja lagi má hugsa sér að lögð sé áhersla á trúarbragðafræðslu þar sem gengið er út frá nemendanum sjálfum, tilvistarspurningum hans og leit eftir merkingu og samhengi í tilverunni. Áherslan er þá ekki á trúarbrögðin hver fyrir sig og hefðir þeirra, heldur á nemandann og tilvistartúlkun hans. Færni nemenda til að fást við og ræða tilvistarleg og trúarleg viðfangsefni og spurningar og taka afstöðu til þeirra er í brennidepli. Hér er um að ræða eins konar þroska- og uppeldisrök. Sérhver einstaklingur leitar eftir merkingu og samhengi og glímir við ýmiss konar tilvistarspurningar í því sambandi. Þetta er jafnframt hluti af stöðugri mótun og endurmótun sjálfsmyndar og sjálfsskilnings, bæði persónulegs og félagslegs. Mótun heilbrigðrar sjálfsmyndar er mikilvæg og heildstætt lífsviðhorf og skilningur á sjálfum sér sem einstaklingi og sem hluta af stærri heild skiptir máli. Ennfremur færnin til að geta sett sig í spor annarra og taka ábyrga afstöðu til viðhorfa og lífsgilda. Skólinn þarf að taka tillit til þessa og það eru því ýmis gild rök fyrir nálgun af þessu tagi. Á hinn bóginn má benda á að inntak og hefðir einstakra trúarbragða verða fyrst og fremst bakgrunnsefni sem vísað er til og því erfiðara fyrir nemendur að fá heildstæða og skýra mynd af þeim.

Í fjórða lagi má hugsa sér að engin trúarbragðakennsla fari fram í opinberum skólum. Í staðinn er ætlast til að heimili, kirkjur og trúfélög eða skólar á þeirra vegum annist fræðslu af þessu tagi. Hér er byggt á þeirri skoðun að trúarbragðafræðsla geti ekki átt sér stað í opinberum skólum svo vel fari. Það sé alltaf hætta á trúarlegri innrætingu og mismunun milli trúarbragða. Samfélagið sé "sekúlariserað" eða afhelgað og þar af leiðandi eru stofnanir þess ekki undir valdi eða stórn kirkju eða trúfélaga. Auk þess hafi samfélagsþróunin leitt af sér fjölmenningarlegt samfélag og því séu engin ein trúarbrögð í sérstöðu heldur búi saman fólk með margbreytileg trúarbrögð og lífsviðhorf. Trúarbragðafræðsla í opinberum skólum stefni við slíkar aðstæður trúfrelsi í voða og því heppilagast að heimilin og trúfélögin annist þessa fræðslu. Hér er því um að ræða eins konar mannréttinda- og samfélagsrök. Á móti má benda á að viðhorf af þessum toga gera lítið úr eða hafna almennum menningar og samfélagsáhrifum trúarbragðanna og færa trú og trúarbrögð alfarið yfir á svið einkalífs. Auk þess er hætta á að trúarbragðafræðsla á vegum heimila eða trúfélaga feli örðu fremur í sér sértækar áherlsur viðkomandi trúfélags. Þekkingin verður því afmörkuð og sértæk og heildstæð sýn og almenn þekking á trúarbrögðun síður fyrir hendi. Það getur síðan leitt af sér skilningsleysi og fordóma.

Í framhaldi af þessu má velta fyrir sér hvaða fyrirkomulag kristinfræði- og trúarbragðanáms og kennslu sé heppilegast eða ásættanlegast í grunnskólum á Íslandi. Er það núverandi skipan með mesta áherslu á kristin fræði en jafnframt fræðslu um önnur helstu trúarbrögð heims? Eða á að legga áherslu á almenna trúarbragðafræðslu þar sem reynt er að gera öllum helstu trúarbrögðum heims áþekk skil? Fer kannski betur á því að setja nemandann í brennidepil, tilvistarspurningar hans og leit eftir tilgangi og merkingu? Eða er ef til vill heppilegast að hætta allri kennslu um trúarbrögð í grunnskólum?

Afhelgun og fjölmenning Í umræðum á undanförnum árum um stöðu og hlutverk kristinfræði- og trúarbragðafræðikennslu í opinberum skólum er gjarnan vísað til afleiðinga "sekúlariseringar" og vaxandi fjölmenningar og margbreytileika samfélagsins. Í því sambandi er mikilvægt að huga aðeins að því hvað við eigum við með þessum hugtökum. Hugtakið "sekúlarisering" hefur stundum verið þýtt sem afhelgun samfélagsins og stofnana þess. Þá er átt við að "sekúlarisering" eða afhelgun sé ferli sem hafi átt sér stað síðastliðnar aldir og feli í sér að trúarbrögð, trúarstofnanir og trúarleg hugmyndakerfi almennt, hafi æ minni áhrif á menningarlífið og samfélagið og stofnanir þess. Hér á landi og á Vesturlöndum hefur þessi þróun birst í því að stöðugt fleiri svið og stofnanir samfélagsins hafa losnað undan valdi og forræði kirkjunnar.

Hér getur verið gagnlegt að greina á milli opinberrar "sekúlariseringar" og "sekúlariseringar" einkalífsins. Opinber "sekúlarisering" er nokkuð augljós þannig að skólar, heilsugæsla og félagsleg þjónusta og menningarlíf er ekki lengur fyrst og fremst á vegum eða forræði kirkjunnar heldur á hendi borgaralegra stofnana. Þetta birtist t.d. í því að því er skólann varðar að honum er ekki ætlað að boða tiltekna trú eða sinna hluta af skírnarfræðslu kirkjunnar í sinni kristindómsfræðslu heldur eingöngu að fræða um kristni og önnur trúarbrögð. "Sekúlarisering" einkalífsins hefur til að mynda birst í því að kirkjan og trúarleg iðkun setur minni svip á heimilis- og fjölskyldulíf en áður og hefðbundin kristin viðhorf og gildi eru ekki lengur sjálfgefin. Það má hins vegar velta því fyrir sér hvort ekki sé komið visst bakslag í "sekúlariseringu" einkalífsins. Um það vitnar aukinn áhugi fólks á alls kyns andlegum málum auk þess sem víða má sjá meiri þátttöku í kirkju- og trúarstarfi ýmiss konar. Í því samhengi má líka spyrja hvort fræðsla um trúarbrögð og lífsviðhorf sé ekki nauðsynlegri fyrir vikið til að fólk eigi betur með að fóta sig og skilja sig og aðra í þessu efni. Fjölmenningin og fjölhyggjan felur í sér að fjöldi ólíkra viðhorfa, trúarbragða og lífsskoðana lifa hlið við hlið í einu og sama samfélaginu. Sá margbreytileiki kallar líka á markvissa trúarbragðafræðslu til að auka þekkingu á þessu sviði og draga úr fordómum.

Í því sambandi má gjarnan huga að aðgreiningu milli hefðbundins margbreytileika (tradisjonell pluralitet) og nútíma margbreytileika (moderne pluralitet). Norðmaðurinn Geir Skeie (1995, s. 47-59 og 1998, s. 22-24) hefur bent á muninn þar á og sett í trúaruppeldisfræðilegt samhengi. Með hefðbundnum margbreytileika er átt við þann menningarlega margbreytileika sem sýnilegur er í mörgum vestrænum samfélögum og á ýmist rætur í vaxandi fjölda aðfluttra einstaklinga og hópa með ólíkan menningarlegan og trúarlegan bakgrunn en birtist einnig í þeim trúarlega margbreytileka sem er að finna meðal innfæddra íbúa hinna ýmsu landa. Síðarnefndi margbreytileikinn hefur reyndar fengið mun minni athygli, en hefur þó í seinni tíð verið dreginn meira fram í dagsljósið. Þá hafa ýmsar nýtrúarhreyfingar aukið enn á trúarlegan og hugmyndafræðilegan fjölbreytileika. Með nútíma margbreytileika er aftur á móti átt við þá þróun sem á sér stað í samfélögum "síð-modernisma" eða "post-modernsima", þegar samfélagið verður æ sundurleitara og sameiginlegur viðmiðunarrammi og gildagrunnur leysist upp bæði fyrir einstaklinga, hópa og þær stofnanir sem einstaklingarnir tengjast. Þessari sundurgreiningu í samfélaginu fylgir vaxandi einstaklingshyggja og sjálfsmynd þar sem einstaklingar samsama sig tilteknum hópi sem á gjarnan lítið sameiginlegt með öðrum hópum í samfélaginu. Við þessar aðstæður eru trúarbrögðin gjarnan álitin einkamál og hefðbundnar hugmyndir og gildi oft slitin úr samhengi sínu við þau og álitin aðstæðubundin og afstæð. Inn í þetta fléttast svo rökræður um sannleika og merkingu, þekkingu og völd og persónulega og félagslega sjálfsmynd. Ofan á þetta bætast svo við áhrif alheimsvæðingar og upplýsingatækni sem gera einstaklingana býsna berskjaldaða gagnvart stöðugu flæði og áreiti fjölbreyttra hugmynda, gilda og hugsjóna sem bregðast þarf við. Þetta leiðir gjarnan til þess að fólk eru knúið til að endurmeta aftur og aftur sjálfsmynd sína og sjálfsskilning.

Greining Skeie er gagnleg þar sem hún dregur fram að margbreytileikinn á sér ekki bara rætur í auknum fjölda fólks með ólíkan trúarlegan og menningarlegan bakgrunn í samfélögum margra Evrópulanda. Margbreytileikinn er mun fjölbreyttari og flóknari. Sú tilhneiging að ýta trúarbrögðunum alfarið yfir á svið einkalífsins og vaxandi flóra ýmiss konar nýtrúarhreyfinga gerir myndina miklu fjölskrúðugri og fólk mætir í daglegu lífi margs konar hugmyndum og straumum, bæði trúarlegum og af öðrum toga, sem það á jafnvel erfitt með að greina og skilja. Þá bendir greining Skeie einnig á þá breytingu sem orðið hefur við það að hefðbundin viðhorf eru ekki lengur talin sjálfsögð, viðmiðurnarrammar fólks liðast í sundur og gildi og gildismat verður afstæðara og óljósara. Allt þetta hefur svo áhrif á sjálfsmynd og tilvistarskilning fólks og forsendur til að fóta sig.

Þrátt fyrir að sú mynd sem dregin er upp af þessum tveimur hliðum margbreytileikans sýni glögglega hve flókið það er í nútíma samfélagi að miðla trúar- og siðgæðishefð frá einni kynslóð til annarrar, er ljóst að fræðsla um trúarbrögð og lífsviðhorf er mikilvæg inn í þetta samhengi. Þekking á ólíkum trúarbrögðum og hugmyndakerfum hjálpar fólki að skilja sig sjálft og aðra sem tilheyra öðrum trúarbrögðum, auk þess sem slík fræðsla hjálpar því að takast á við og greina trúarlegar hugmyndir og fyrirbæri, gildi og gildismat, og fóta sig í veruleikanum.

Ásættanleg leið?

Hvers konar fyrirkomulag er þá skynsamlegt og ásættanlegt varðandi trúarbraðgafræðslu í grunnskólum á Íslandi? Þær umræður sem af og til eiga sér stað um stöðu greinarinnar í grunskólunum benda til þess að ekki verði allir á eitt sáttir um hvað best sé að gera. Gagnrýni á núverandi fyrirkomulag með langmesta áherslu á þekkingu í kristnum fræðum hefur jafnframt farið vaxandi. Þótt umræðan hafi ekki alltaf verið málefnaleg er þó ástæða til að hlusta á málefnalega gagnrýni.

Frá mínum bæjardyrum séð væri það slæm niðurstaða ef valin yrði sú leið að taka alla trúarbragðafræðslu út úr grunnskólunum og fela hana heimilum og trúfélögum eingöngu. Ef við féllumst á að hún eigi bara að vera viðfangsefni heimilis og fjölskyldu erum við um leið að fallast á að trú og trúarbrögð tilheyri fyrst og fremst sviði einkalífsins. Ef niðurstaðan yrði hins vegar sú að vísa þessu verkefni til kirkju og trúfélaga má allt eins búast við að þau komi á fót eigin skólum til að annast þessa fræðslu eða jafnvel einkagrunnskólum þar sem fræðsla á þessu sviði yrði hluti af námi nemenda. Hættan er sú að það leiði af sér verulega vanþekkingu á trúarbrögðum almennt og eðli þeirra eða mjög þrönga sérþekkingu á þeirri trúararfleifð sem viðkomandi trúfélag eða fjölskylda aðhyllist. Slík þróun væri óheppileg í samfélagi vaxandi fjölmenningar og margbreytileika. Trúarbrögð eru þrátt fyrir allt tal um "sekúlariseringu" bæði menningarlegt og félagslegt fyrirbæri sem ekki verður horft framhjá.

Þótt margbreytileikinn og alheimsvæðingin geri það mikilvægt að fræða börn og unglinga um helstu trúarbrögð heims þá tel ég jafnframt að það megi færa ágæt rök fyrir því að ekki þurfi að verja jafnmiklum tíma í fræðslu um þau öll. Kristin trú er í nokkurri sérstöðu hér á landi og í mörgum nágrannalöndum vegna áhrifa hennar á íslenska og vestræna menningu. Auk þess er kristnin fjölmennustu trúarbrögð heims. Í Bretlandi með alla sína fjölmenningu er t.d. talið eðlilegt að kristni fái almennt meira rými en en önnur trúarbrgöð á stundatöflum skólanna bæði vegna sögulegrar og félagslegrar stöðu hennar fyrr og nú í bresku samfélagi og í veröldinni yfirleitt. En þá er um leið gerð krafa um að fræðslan sé á forsendum skólans en ekki trúarleg boðun (Jackson, R. 2004, s. 31).

Miðað við þessar forsendur og þróun íslensks samfélags tel ég að það sé rökrétt og eðlilegt að halda í sérstöðu kristinna fræða upp að eðlilegu marki þegar kemur spurningunni um vægi einstakra trúarbragða í grunnskólakennslunni. Um leið þarf að auka vægi fræðslu um önnur trúarbrögð og lífsviðhorf frá því sem nú er þannig að nemendur öðlist breiðari þekkingu á þessu sviði. Nýtt námsefni handa mið- og yngsta stigi grunnskólans um önnur trúarbrögð en kristni ætti að stuðla að því. Fræðslan þarf að vera fagleg og fjalla bæði um kristni og önnur trúarbrögð út frá sögulegu, menningarlegu og félagslegu samhengi, en ekki síður að gera skil á inntaki trúarbragðanna þannig að nemendur geti skilið sínar eigin rætur og samhengi sem og annarra. Í því sambandi þurfa trúarbrögðin, hvort sem það er kristnin eða önnur, að njóta sannmælis á þann hátt að sú mynd sem dregin er upp af þeim samræmist því sem þau standa fyrir og fylgjendur þeirra aðhyllast. Um leið þarf að vera ljóst að um fræðslu er að ræða um trúarbrögðin en ekki trúboð. Fjölmenningarsamfélagið kallar á betri og meiri fræðslu og þekkingu á þessu sviði og þar þurfa grunnskólinn, framhaldskólinn og kennaramenntunarstofnanir að taka sig á.

Samhliða því að nemendur fái haldgóða fræðslu um trúarbrögðin þarf að efla þá nálgun í námi þeirra að taka meira mið af nemendunum og tilvistarspurningum þeirra og leit þeirra að samhengi og merkingu í tilverunni. Allir glíma við slíkar spurningar og leita svara við þeim og tilgangi lífsins. Það færir trúarbragðafræðsluna nær nemendunum sjálfum að tengja arfleifð þeirra við þær spurningar og viðhorf sem bæði þeir og manneskjan yfirleitt er að fást við. Trúarbrögðin hafa til dæmis verið mörgum stoð í glímunni við tilvistarspurningarnar og leitinni eftir merkingu og mótun sjálfsmyndar og lífsskoðunar. Með slíka nálgun í huga er mikilvægt í kristinfræði- og trúarbragðakennslu að beita verkefnum og umræðum um slíkar spurningar í meira mæli en nú er almennt gert og fást við þær með vísan til þekkingar á grundvallaratriðum kristni, annarra trúarbragða og lífsskoðana. Samræður um efnið gefa gott tækifæri til þess að tjá sig um viðhorf sín og hlusta á sjónarmið annarra. Þannig fá margbreytilegar raddir þeirrar fjölmenningar sem birtist í hverjum skóla og bekk að hljóma og nemendur læra að bera virðingu fyrir ólíkum viðhorfum og rétti fólks til að hafa þau. Þetta gerir hins vegar meiri kröfur til kennara. Þeir þurfa að hafa faglega þekkingu á efninu svo þeir valdi því að efna til og stýra slíkum samræðum.

Rannsóknir hafa sýnt að hið trúarlega er lifandi veruleiki í lífi og umhverfi barna og unglinga og skiptir þau mörg máli (sjá Gunnar J. Gunnarsson 1999a; 1999b og 2001). Í rannsókn sem ég og Gunnar Finnbogason, dósent við Kennaraháskóla Íslands, erum að vinna að um þessar mundir um lífsviðhorf og gildismat unglinga eru vísbendingar um hið sama, en jafnframt um að unglingarnir eigi erfitt með að tjá sig um og ræða trúarlegar spurningar og málefni, lífsviðhorf og gildismat. Ef til vill er það vegna þess að þau eru óvön að fást við og ræða viðfangsefni og spurningar af þessu tagi þar sem tækifærin til þess hafa verið af skornum skammti bæði í skólum og heima fyrir. Þau eru hins vegar ekkert frábrugðin fullorðnum í því að glíma við tilvistarspurningar og tilvistartúlkun. Stöðug mótun og endurmótun sjálfsmyndarinnar er æ meira krefjandi í flóknu nútímasamfélagi. Inn í það blandast þættir eins og lífsviðhorf, trú, gildi og gildismat, og því er það mikilvægt viðfangsefni skólans er að gera nemendum kleift að takast á við og ræða trúarleg og tilvistarleg viðfangsefni meðal annars með vísan til þeirra trúarbragða, lífsviðhorfa og gilda sem þeir aðhyllast eða mæta í samfélaginu. Til þess að það gangi þurfa þau jafnframt staðgóða þekkingu á þeim trúarbrögðum og lífsviðhorfum sem þar er um að ræða.

Heimildir

 1. Aðalnámskrá grunnskóla 1999, kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði.
 2. Anna M. Sigurðardóttir og María Jónsdóttir (1993). Ekki er allt sem sýnist. Athuganir á viðhorfum kennara til kristinna fræða og stöðu greinarinnar í grunnskólum. Reykjavík, Kennaraháskóli Íslands, ópr. B.Ed.-ritgerð.
 3. Auður Pálsdóttir og Ragnheiður Matthíasdóttir. (1993). Könnun á kennslu í kristnum fræðum. Reykjavík, Kennaraháskóli Íslands, ópr. B.Ed.-ritgerð.
 4. Björn Björnsson og Pétur Pétursson (1989). Trúarlíf Íslendinga. (Ritröð Guðfræðistofnunar nr. 3), Reykjavík, Háskóli Íslands.
 5. Gunnar J. Gunnarsson (1999a). Unglingar og trú. Nokkrar niðurstöður úr rannsókn á trú og trúariðkun barna og unglinga. Bjarmi 93(1):13-17. Reykjavík, Samband íslenskra kristniboðsfélaga.
 6. Gunnar J. Gunnarsson (1999b). Eru stelpur trúaðri en strákar? Uppeldi og menntun 8:9-33. Reykjavík, Kennaraháskóli Íslands.
 7. Gunnar J. Gunnarsson (2001). Guðsmynd og trúarhugsun barna og unglinga. Uppeldi og menntun 10:181-205. Reykjavík, Kennaraháskóli Íslands.
 8. Gunnar Sturla Hervarsson (1998). Kristindómsfræðsla í sögu og samtíð. Þróun kristinna fræða og athugun á viðhorfum til þeirra. Reykjavík, Kennaraháskóli Íslands, ópr. B.Ed.-ritgerð.
 9. Jackson, Robert (2004). Rethinking Religious Education and Plurality. Issues in diversity and pedagogy. London, Routledge Falmer.
 10. Skeie, Geir (1995). Plurality and pluralism: a challenge for religious education. British Journal of Education, 25 (1): 47-59.
 11. Skeie, Geir (1998). En kulturbevisst religionspedagogikk. Trondheim, Norgesteknisk-naturvetenskaplige universitet. Det historisk-filosofiske fakultet, Institutt for religionsvitenskap.